Líkamsrækt utandyra

Líkamsrækt utandyra

Hvað viltu láta gera? Núverandi aðstaða til líkamsræktar (calisthenics park) á túninu austan við Vesturbæjarlaug (blágræn tæki) er léleg og fábreytt, og engu líkara en hún sér fyrst og síðast hugsuð fyrir börn. Hugmyndin að setja upp slíka líkamsræktaraðstöðu á þessum stað er hins vegar frábær. Við þurfum bara að gera þetta aðeins betur svo þetta nýtist íbúum betur. Hægt væri að bæta þessa aðstöðu og koma fyrir fleiri og fullkomnari tækjum. Bætt aðstaða fælist í: Betra og mýkra undirlagi (hlaupabrautarundirlag), mun fjölbreyttari tæki sem henta fullorðnum s.s. til lyftinga og styrktaræfinga, lóðréttir kaðlar, uppstigspallar auk tækja til calisthenics æfinga eins og núverandi aðstaða býður upp á (nema stærri). Fjölmargar borgir í nágrannalöndum bjóða íbúum upp á svona stöðvar og þær eru jafnan mikið nýttar. Mikill og vaxandi áhugi er á útivist og hlaupum utandyra allt árið um kring. Bætt aðstaða af þessu tagi fellur mjög vel að þessum vaxandi áhuga borgarbúa enda myndi þarna bætast við kjörin aðstaða til styrktaræfinga og til að teygja eftir hlaup. Hvers vegna viltu láta gera það? Bætt aðstaða til líkamsræktar utandyra af þessu tagi væri mikill fengur fyrir hverfið og væri afar vel staðsett þarna við sundlaugina. Framkvæmd af þessu tagi hvetur til hreyfingar og heilbrigðs lífsstíls, bætir lífsgæði íbúa hverfisins og stuðlar óbeint að sparnaði fyrir borgina enda dregur hreyfing og líkamsrækt úr tíðni lífstílstengdra sjúkdóma o.fl. Þá væri bætt aðstaða af þessu tagi einnig til nokkurra hagsbóta fyrir tekjulægri einstaklinga og námsmenn sem þarna fengju ókeypis aðgang að hluta þeirra gæða sem annars þarf að nálgast á líkamsræktarstöðvum. Þar sem engin líkamsræktarstöð er í göngufæri við flesta íbúa Vesturbæjar má einnig gera ráð fyrir að framkvæmdin dragi úr umferð bíla í hverfinu. Fjárfesting í núverandi aðstöðu á svæðinu er ekki farin í súginn ef af þessu verður heldur mætti bæta við núverandi aðstöðu eða færa núverandi tæki annað, t.d. niður á Ægisíðu þar sem enn fábrotnari aðstaða til líkamsræktar er núna (rauð tæki).

Points

Back to group

This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation

Your Priorities on GitHub

Check out the Citizens Foundation website for more information